Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 271 —  97. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Auk þess óskaði fjárlaganefnd eftir áliti frá Ríkisendurskoðun um frumvarpið.
    Nefndin hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 2.568,4 m.kr. til hækkunar gjalda og 2.084 m.kr. til lækkunar tekna á rekstrargrunni.
    Nokkur mál er varða velferðar- og innanríkismál bíða 3. umræðu.
    Í töflunni hér á eftir eru sýnd áhrif þessara breytingartillagna á heildartölur frumvarpsins á rekstrargrunni.
    
Fjárlög 2011 Fjáraukalagafrv.
2. umr.

Samtals
Frumtekjur 451,8 9,5 - 2,1 459,2
Frumgjöld 436,2 20,5 3,1 459,8
Frumjöfnuður 15,6 -11,0 - 5,2 - 0,6
Vaxtatekjur 20,7 0,8 0,0 21,5
Vaxtagjöld 73,7 - 6,3 - 0,5 66,8
Vaxtajöfnuður - 53,0 7,1 0,5 - 45,3
Heildartekjur 472,5 10,3 - 2,1 480,6
Heildargjöld 509,8 14,2 2,6 526,6
Heildarjöfnuður - 37,3 - 3,9 - 4,7 - 46,0

    Framkvæmd fjárlaga hefur að mati Ríkisendurskoðunar verið ámælisverð um langan tíma en eins og stofnunin bendir á „er á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlög séu virt“. Ríkisendurskoðun bendir á að á tímabilinu 2003–2007 námu fjáraukalög að meðaltali um 6% af samþykktum fjárlögum hvers árs. Árið 2008 var þetta hlutfall tæp 8% enda var þá brugðist við ýmsum kostnaði vegna falls bankanna þá um haustið. Í fjáraukalögum fyrir árið 2009 voru útgjöld hækkuð um rúm 2% frá fjárlögum, en árið 2010 voru þau lækkuð lítillega. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir hækkun útgjalda sem nemur 2,8% frá fjárlögum ársins 2011. Að mati Ríkisendurskoðunar er agi meiri nú en áður þegar kemur að því að samþykkja ný útgjöld í fjáraukalögum en við eigum nokkuð í land þegar horft er til fjárlagagerðar nágrannaríkja þar sem aukning samkvæmt fjáraukalögum er um 1%.
    Viðhorf stjórnvalda og Alþingis til ríkisfjármála hefur breyst verulega til batnaðar að undanförnu. Æ fleiri gera sér nú grein fyrir mikilvægi þess að góð stjórn sé á fjármálum ríkisins og að vanda þurfi bæði áætlanagerð og eftirfylgni með útgjöldum. Sú ábyrgð hvílir á Alþingi að fylgja fjárlögum hvers árs eftir og sjá til þess að útgjöld ríkisins séu ávallt innan ramma fjárlaga.
    Meiri hlutinn gerir tillögur um breytingar á 3. gr. frumvarpsins sem varðar þann hluta lánveitingar ríkisins til Vaðlaheiðarganga hf., til fjármögnunar gangaframkvæmda, sem áætlað er að greiðist félaginu á þessu ári. Þá eru gerðar breytingar á 4. gr., heimildagrein, sem einnig varða Vaðlaheiðargöng. Forsenda Alþingis fyrir ákvörðun um að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga hefur verið að framkvæmdin standi undir sér að öllu leyti. Sú forsenda er óbreytt. Meiri hlutinn leggur áherslu á að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.
    Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

        Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 52 m.kr.
201     Alþingi.
        1.07
Sérverkefni. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag vegna kostnaðar við nefnd um eflingu græns hagkerfis. Í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 10. júní 2010 var skipuð nefnd níu manna með fulltrúum þingflokka sem hafði það verkefni að kortleggja sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar. Nefndin fékk 2 m.kr. fjárveitingu í fjáraukalögum 2010 og 3,1 m.kr. í fjárlögum 2011 og var gert ráð fyrir að hún mundi skila niðurstöðum fyrir 1. mars 2011. Nefndin lauk störfum með útgáfu skýrslu um eflingu græna hagkerfisins 29. september sl. Vinna nefndarinnar var viðameiri en áætlað var í upphafi og birtist það m.a. í kostnaði umfram áætlun við aðkeypta þjónustu, málþing og útgáfu skýrslunnar.
291     Rannsóknarnefndir Alþingis.
        1.01
Rannsóknarnefndir Alþingis. Gerð er tillaga um 48 m.kr. fjárveitingu fyrir rannsóknarnefndir Alþingis vegna útgjalda sem áætlað er að falli til á árinu 2011. Rannsóknarnefndir Alþingis eru stofnaðar samkvæmt lögum nr. 68/2011. Tvær nefndir tóku til starfa 1. september sl., rannsóknarnefnd um starfsemi sparisjóðanna og rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð. Hvor nefnd er skipuð þremur einstaklingum sem verða í fullu starfi á starfstíma nefndanna. Nefndirnar hafa heimild til að ráða sér til aðstoðar mannafla og fá aðra þá aðstoð sem þær telja nauðsynlega. Samkvæmt þingsályktun um íbúðalánasjóðsnefndina skal hún skila skýrslu eftir sex mánuði en rannsóknarnefnd um sparisjóðina er ætlað að skila af sér eftir 12 mánuði. Tekinn hefur verið á leigu hluti af 2. hæð hússins á Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi. Leigusali er landlæknisembættið, sem hefur húsið á leigu, og er leigan í hlutfalli við leigu sem embættið greiðir. Við val á húsnæðinu var haft í huga að hægt yrði að bæta við húsrými ef þörfin yrði meiri en í fyrstu var áætlað. Nefndinar réðu í upphafi einn starfsmann sem mun annast margvíslega þjónustu og sameiginlegan rekstur nefndanna. Rannsóknarnefnd um sparisjóðina áætlar að ráða allt að sjö starfsmenn í mislangan tíma og kaupa auk þess að nokkra sérfræðiaðstoð. Þegar hefur verið gengið frá ráðningu fjögurra starfsmanna. Ekki er gert ráð fyrir að rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð muni ráða sér starfsmenn en hún mun kaupa að nokkra sérfræðiaðstoð.

02 Mennta- og menningarmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild mennta- og menningarmálaráðuneytis verði aukin um 24 m.kr.
210     Háskólinn á Akureyri.
        1.01
Háskólinn á Akureyri. Gerð er tillaga um 24 m.kr. aukafjárveitingu vegna greiðslu fasteignaskatts í Borgum. Leigusala hafði láðst að innheimta þennan fasteignaskatt frá árinu 2007 og sendi á haustmánuðum einn reikning fyrir uppsöfnuðum fasteignaskatti síðustu fimm ára. Rannsóknarhúsnæðið að Borgum var ekki inni í þeirri fasteignamatsskrá sem lá til grundvallar sérstökum fjárveitingum til Háskólans á Akureyri vegna tilkomu fasteignaskatts. Skólinn hefur því ekki fengið sérstakar fjárveitingar vegna hans. Vegna uppsagnar á 7. hæð húsnæðis í Borgum munu framtíðarskuldbindingar vegna fasteignaskatts rúmast innan fjárveitinga HA frá og með 2012 og því er hér um einskiptiskostnað að ræða.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði lækkuð um 61,3 m.kr.
111     Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis.
        1.01
Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis. Lagt er til að 306,6 m.kr. fjárheimild sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu til að ráðstafa styrk frá Evrópusambandinu vegna þýðingaverkefna verði lækkuð um 61,3 m.kr. í 245,3 m.kr. eða sem svarar til 1,6 m. evra. Þegar upphafleg tillaga var sett fram í frumvarpinu lá ekki nægilega vel fyrir áætlun um kostnaðarskiptingu á milli áranna 2011 og 2012. Á móti er gert ráð fyrir að flytja tillögu um sambærilega hækkun fjárheimildar við 2. umræðu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012.

06 Innanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild innanríkisráðuneytis verði aukin um 250 m.kr.
398     Útlendingastofnun.
        1.01
Útlendingastofnun. Gerð er tillaga um 60 m.kr. viðbótarfjárheimild vegna halla sem myndast hefur á þessu og síðasta ári vegna verulegrar fjölgunar hælisleitenda. Þar af eru um 27 m.kr. uppsafnaður halli frá fyrra ári. Tillagan er sett fram í samræmi við minnisblað sem lagt var fram á ríkisstjórnarfundi 26. ágúst sl. og samþykkt með fyrirvara um endanlega frjárhæð. Á árinu 2011 hafa nú þegar 60 sótt um hæli og hafa þeir verið í viðtölum hjá lögreglu, ýmist hjá Keflavíkurflugvelli eða lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en það hefur valdið verulegum kostnaðarauka vegna flutninga. Þá eru viðtöl hjá Útlendingastofnun með aðstoð túlka, skriflegar greinargerðir umsækjenda eða framlögð gögn á þeirra eigin tungumáli sem þarf að þýða með tilheyrandi kostnaði. Flestar ákvarðanir stofnunarinnar eru kærðar í samræmi við aukinn rétt samkvæmt nýjum útlendingalögum og eru hælisleitendur því áfram á framfæri Útlendingastofnunar. Til samanburðar má nefna að í fyrra sótti 51 um hæli hér á landi, 35 árið 2009, 73 árið 2008 og 42 árið 2007. Sveiflur í fjölda hælisleitenda er því mikill en allt bendir til að hælisleitendum muni fjölga á næstu missirum.
651     Vegagerðin.
        1.11
Styrkir til ferja og sérleyfishafa. Lögð er til 135 m.kr. fjárheimild vegna aukinnar fjárþarfar við rekstur Herjólfs þar sem forsendur fyrir rekstrinum hafa ekki gengið eftir. Gert var ráð fyrir níu manna áhöfn með siglingum til Landeyjahafnar en þegar þurfti að taka upp siglingar til Þorlákshafnar varð að fjölga aftur í áhöfn um þrjá menn. Ekki verður hægt að fækka í áhöfn nema siglingar verði varanlegar í Landeyjahöfn. Kostnaðarauki af fjölgun í áhöfn er um 70 m.kr. Þá hefur hafnarkostnaður í rekstri einnig aukist miðað við forsendur þar sem í dag eru reknar þrjár hafnir í stað tveggja. Leiga og rekstur Landeyjahafnar lækkar ekkert meðan siglingar fara um Þorlákshöfn og í Þorlákshöfn var þörf á að gera samninga þannig að höfnin gæti áfram tekið á móti Herjólfi. Kostnaðarauki við það er um 15 m.kr. Þá er olíunotkun töluvert meiri en gert hefur verið ráð fyrir vegna lengri siglingaleiðar og er sá kostnaðarauki áætlaður 50 m.kr. á ársgrundvelli.
662     Hafnarframkvæmdir.
        6.72
Landeyjahöfn. Lagt er til að fjárveiting liðarins verði aukin um 70 m.kr. til viðbótar við 60 m.kr. fjárheimild sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu. Í fjárlögum ársins 2011 var veitt 203 m.kr. fjárveiting sem byggist á samgönguáætlun áranna 2009–2012 þar sem gert var ráð fyrir nýrri höfn og nýju skipi. Í þeirri fjárveitingu er ekki gert ráð fyrir jafnviðamikilli dýpkun og nauðsynleg er til að tryggja siglingar Herjólfs milli Eyja og Landeyjahafnar. Á þessu ári er gert ráð fyrir að heildarkostnaðurinn við að ljúka byggingu hafnarinnar og viðhaldsdýpkun verði 467 m.kr. sem skiptist þannig að til dýpkunar fari 266 m.kr., til að ljúka við gerð brimvarnargarða 101 m.kr., til landgræðslu 28,4 m.kr., til bráðbirgðavarnargarðs við Markarfljót 28,1 m.kr. og til ýmiss minni frágangs, hönnunar og eftirlits 43,5 m.kr. Verkið er fjármagnað með 203 m.kr. fjárveitingu á fjárlögum þessa árs og eftirstöðvum aukafjárveitingar í fjáraukalögum 2010, 134 m.kr. Tillaga um 130 m.kr. aukafjárveitingu á þessu ári er því lögð fram til að tryggja reksturinn á þessu ári. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að 60 m.kr. mundu nægja en nú er ljóst að frekari dýpkunar er þörf til að auka nýtingu hafnarinnar.
681     Póst- og fjarskiptastofnunin.
        1.01
Póst- og fjarskiptastofnunin. Lagt er til að stofnuninni verði veitt 30 m.kr. fjárheimild sem fjármögnuð verði af mörkuðum tekjum hennar til sérverkefnis. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 29. október 2010 að stofnuninni yrði falið að stofna öryggis- og viðbragðsteymi vegna netöryggismála og nota til þess 30 m.kr. af eigin fé sínu þar eð ekki væri unnt að koma verkefninu fyrir í rekstraráætlun stofnunarinnar. Miðað er við að stofnunin hafi samráð um málið við fjarskiptafyrirtæki og eigi formlega eða óformlega samvinnu við aðrar stofnanir og atvinnugreinar þar sem netöryggismál eru mikilvæg. Jafnframt hugi stofnunin að og eftir atvikum komi með tillögur að breytingum á regluverki, m.a. með tilliti til mögulegra heimilda til inngripa hennar vegna yfirvofandi eða yfirstandandi netárása. Ljóst er að nokkurt rekstrartap hefur verið á stofnuninni á síðasta ári og því hefur þrengt að höfuðstól. Aftur á móti gera gildandi fjárlög ráð fyrir að stofnuninni verði gert að leggja 40,5 m.kr. af tekjum ársins á bundinn höfuðstól. Með tillögu þessari er lagt til að sú fjárhæð verði lækkuð um 30 m.kr. vegna þessa verkefnis.
689     Fjarskiptasjóður.
        6.41
Fjarskiptasjóður. Gerð er tillaga um 15 m.kr. fjárveitingu til að ljúka verkefnum Fjarskiptasjóðs á þessu ári. Fjárvöntunin er tilkomin vegna nokkurra þátta. Í fyrsta lagi voru áætlanir um vaxtatekjur sjóðsins ofmetnar um 7,2 m.kr., fjöldi nýrra áskrifenda var meiri í árslok 2010 en áætlanir gerðu ráð fyrir eða sem nemur 3,3 m.kr. og á yfirstandandi ári eru áskrifendur sömuleiðis umfram áætlanir og er kostnaður vegna þess um 3,5 m.kr. Þá er aðkeypt lögfræðiþjónusta vegna kærumála um 500 þús. kr. og aukaverk í háhraðanetstengingum um 500 þús. kr. eða samtals 15 m.kr.
841     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.11
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sérstök viðbótarframlög. Lagt er til að framlag vegna húsaleigubóta sveitarfélaga sem færist á þennan lið verði lækkað um 60 m.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir viðbótarframlagi að fjárhæð 140 m.kr. vegna samkomulagsins um húsaleigubætur frá 1. apríl 2008. Sú fjárhæð var áætluð á grundvelli áætlana sveitarfélaga um heildargreiðslur almennra húsaleigubóta á árinu 2011. Greiðslur sveitarfélaga á almennum húsaleigubótum hafa orðið lægri fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins en áætlanir sveitarfélaganna gerðu ráð fyrir og greiðslur sveitarfélaga á sérstökum húsaleigubótum hafa orðið hærri en sveitarfélögin gerðu ráð fyrir. Með tilvísun til þessa hefur farið fram endurmat á viðbótarfjárþörf ársins vegna greiðslu sveitarfélaga á almennum og sérstökum húsaleigubótum. Að teknu tilliti til raungreiðslna sveitarfélaga á almennum og sérstökum húsaleigubótum á fyrsta til þriðja ársfjórðungi og áætlana um greiðslur á fjórða ársfjórðungi má ætla að viðbótarfjárþörfin gæti orðið um 60 m.kr. lægri eða um 80 m.kr. í stað 140 m.kr.

08 Velferðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild velferðarráðuneytis verði aukin um 225,5 m.kr.
206     Sjúkratryggingar.
        1.16
Lyf með S-merkingu. Lögð er til breyting á framsetningu fjárheimildar. Fjárheimild liðarins á að færast sem önnur rekstrargjöld en ekki tilfærsluútgjöld.
317     Lyfjastofnun.
        1.01
Lyfjastofnun. Gerð er tillaga um 3,8 m.kr. fjárheimild vegna umsjónar og eftirlits með lækningatækjum. Tilefnið er að með lögum um sameiningu embættis landlæknis og Lýðheilsustöðvar var verkefnið flutt til Lyfjastofnunar frá og með 1. maí 2011. Tryggja þarf stofnuninni útgjaldaheimild á móti sértekjum sem koma inn með útgáfu leyfa.
332     Ríkissáttasemjari.
        1.01
Ríkissáttasemjari. Gerð er tillaga um 5,5 m.kr. hækkun á fjárheimild embættisins. Tilefnið er að ráðinn var aðstoðarsáttasemjari tímabundið til þess að bregðast við miklu vinnuálagi hjá embættinu. Í ársbyrjun 2011 voru nánast allir kjarasamningar í landinu lausir eða á bilinu 300–350 kjarasamningar. Óhjákvæmilegt var að tryggja eðlilegan framgang sáttaumleitana og kjarasamningagerðar. Nú er lokið gerð hátt á þriðja hundrað kjarasamninga og verkefni embættisins komin í jafnvægi á ný.
334     Umboðsmaður skuldara.
        1.01 Umboðsmaður skuldara. Lagt er til að fjárheimildin verði lækkuð um 30 m.kr. Tilefnið er endurmat á rekstraráætlun og verkefnum stofnunarinnar á árinu 2011 sem unnið hefur verið í samstarfi við skrifstofu fjárlaga í velferðarráðuneytinu.
841     Vinnumálastofnun.
        1.01
Vinnumálastofnun. Lagt er til að fjárheimild til Vinnumálastofnunar hækki um 100 m.kr. Fjárheimildin verður nýtt til að kosta vinnumarkaðsaðgerðir og úrræði fyrir fólk sem ekki er tryggt innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Nokkur hópur fólks nýtur ekki slíks réttar þar sem það hefur ekki náð að ávinna sér hann á vinnumarkaði. Verkefnið verður unnið í samstarfi við sveitarfélög. Svigrúm til þessa verkefnis myndaðist í kjölfar þess að stjórn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs afþakkaði 250 m.kr. framlag úr ríkissjóði til Starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. fjárlagalið 09-393.
856     Starfsendurhæfing.
        1.10
Starfsendurhæfing. Lagt er til að fjárheimild til starfsendurhæfingar hækki um 150 m.kr. Fjárheimildin verður nýtt til að framlengja samninga um atvinnutengda endurhæfingu hjá félögum og fyrirtækjum víðs vegar um landið og auðvelda þannig fólki, sem þurft hefur að hætta í námi eða vinnu sökum heilsubrests eða örorku, að hefja störf eða nám að nýju. Svigrúm til þessa verkefnis myndaðist í kjölfar þess að stjórn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs afþakkaði 250 m.kr. framlag úr ríkissjóði til Starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. fjárlagalið 09-393.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 2.415,7 m.kr.
481     Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum.
        6.01
Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Lagt er til að veittar verði 1.230 m.kr. vegna fyrirhugaðra kaupa ríkisins á landi og jarðhitaauðlind Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi. Landið og auðlindin eru nú nýtt til raforkuframleiðslu Reykjanesvirkjunar sem er í eigu HS Orku hf. Íslenska ríkið á fyrir um helming þeirra orkuauðlinda sem virkjunin nýtir vegna eignarhalds á ríkisjörðinni Stað á Reykjanesi. Með kaupum á Kalmanstjörn og Junkaragerði verður jarðhitaauðlind sem nýtt er af virkjuninni öll í eigu ríkisins, sem hefur mikið hagræði í för með sér, enda munu nýtingargjöld þá öll renna til ríkisins án flókinnar skiptingar milli eigenda auðlindarinnar. Eigandi landsins og auðlindarinnar nú er sveitarfélagið Reykjanesbær. Kaupverðið greiðist að hluta með skuldajöfnun á tæplega 900 m.kr. skuld bæjarins við innheimtumann ríkissjóðs vegna fjármagnstekjuskatts sem lagður var á sveitarfélagið vegna tekna ársins 2009. Gert er ráð fyrir að afgangurinn verði greiddur með beinu framlagi úr ríkissjóði.
821     Vaxtabætur.
        1.11
Vaxtabætur. Lagt er til að veitt verði 390 m.kr. viðbótarfjárheimild til greiðslu almennra vaxtabóta. Í fjárlögum ársins 2011 er gert ráð fyrir 11,7 mia.kr. fjárveitingu í almennar vaxtabætur, en miðað við greiðslu þeirra það sem af er árinu og endurskoðaða áætlun um útreikning bótanna til áramóta í ljósi endurákvörðunar skattálagningar á einstaklinga í nóvember er útlit fyrir að þær hafi verið vanáætlaðar. Í frumvarpi er gert ráð fyrir 500 m.kr. viðbótarframlagi og er gerð tillaga um 390 m.kr. til viðbótar.
        1.15
Sérstakar vaxtaniðurgreiðslur. Lagt er til að veitt verði 460 m.kr. viðbótarfjárheimild til greiðslu sérstakra vaxtaniðurgeiðslna. Í fjárlögum ársins 2011 er gert ráð fyrir 6 mia.kr. fjárheimild vegna þessara niðurgreiðslna en miðað við útkomu þeirra það sem af er árinu og endurskoðaða áætlun um útreikning bótanna fram til áramóta hafa þær verið vanáætlaðar.
973     Tapaðar kröfur og tjónabætur.
        6.11
Tapaðar kröfur. Gerð er tillaga um 30 m.kr. viðbótarframlag vegna afskrifaðrar samningskröfu í tengslum við nauðasamningsúrskurð Íslensks sements ehf. Á árinu voru afskrifaðar kröfur að fjárhæð 118,9 m.kr. í tengslum við nauðasamningsúrskurðinn sem er tilkominn vegna kaupa félagsins á Sementsverksmiðjunni. Samkvæmt niðurstöðu nauðasamninganna fékk ríkissjóður greidd 9,78% af kröfu sinni en annað var eðli máls samkvæmt afskrifað. Krafan er hærri en sú heimild sem fyrir er á liðnum og því er óskað eftir viðbótarframlagi sem mismuninum nemur.
        6.15
Tjónabætur. Lagt er til að veitt verði 75 m.kr. viðbótarfjárheimild vegna altjóns á búslóð starfsmanns í utanríkisþjónustu Íslands. Viðbótarfjárhæðin er í samræmi við mat tryggingasérfræðinga og lögfræðings sem annaðist málið fyrir fjármála- og utanríkisráðuneyti f.h. ríkisins. Tryggingar ríkissjóðs eru almennt í eigin ábyrgð og gildir sú regla um flutning á búslóðum starfsmanna sem flytjast á milli landa vegna starfa sinna í þjónustu ríkisins.
989     Ófyrirséð útgjöld.
        1.90
Ófyrirséð útgjöld. Lagt er til að 17,3 m.kr. af fjárheimild liðarins verði millifærðar til Landgræðslu ríkisins til að mæta útgjöldum stofnunarinnar vegna tjóna af völdum eldgosanna á Fimmvörðuhálsi, í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum.
999     Ýmislegt.
        1.11
Endurmenntun og starfsmenntunarsjóðir. Gerð er tillaga um 5 m.kr. hækkun á fjárheimild þessa viðfangsefnis vegna samkomulags BSRB og fjármálaráðherra sem undirritað var 29. maí sl. í tengslum við kjarasamninga við aðildarfélög bandalagsins. Í framkvæmdaáætlun með kjarasamningi á árinu 2009 var samkomulag um að vinna að ýmsum þáttum mannauðsmála. Ekki náðist að ljúka verkefninu að fullu og því er lagt til að því verði haldið áfram. Ríkissjóður leggur til 5 m.kr. sem koma til greiðslu á þessu ári.
        1.14
Tryggingabætur samkvæmt kjarasamningum. Lagt er til að framlag til liðarins verði aukið um 78 m.kr. Tryggingabætur samkvæmt kjarasamningum eru í eigin áhættu ríkissjóðs, en erfitt er að áætla útgjöld á þessum lið sem geta verið mjög breytileg á milli ára. Útgjaldaaukinn stafar annars vegar af greiðslu skírteinistryggingar og hins vegar af fleiri kröfum á grundvelli reglna um slysatryggingar starfsmanna ríkisins nr. 30/1990 og 31/1990.
        1.24
Fjölskyldu- og styrktarsjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Gerð er tillaga um 20 m.kr. aukaframlag vegna bókunar með kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem undirritaður var í júní sl. Þar er kveðið á um 20 m.kr. framlag í sjóðinn á ári á samningstímanum, þ.e. til 2013.
        1.90
Ýmis verkefni. Lagt er til að veitt verði 145 m.kr. fjárheimild vegna ýmissa verkefna í tengslum við endurreisn efnahagslífsins á þessu ári. Búið er að gjaldfæra kostnað að fjárhæð 135,5 m.kr. vegna þriggja stórra verkefna, í fyrsta lagi 58 m.kr. í tengslum við viðreisn banka og sparisjóða, svo sem í sambandi við Byr og sameiningu SpKef og NBI, í öðru lagi 74 m.kr. vegna Icesave-vinnunnar sem var að mestu unnin á síðasta ári, en lokagreiðslur komu til á þessu ári og í þriðja lagi 3,5 m.kr. vegna samstarfs aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun lífeyrismála. Um er að ræða aðkeypta þjónustu tryggingastærðfræðinga og annarra ráðgjafa. Að auki eru útistandandi reikningar frá tveimur erlendum aðilum að fjárhæð 9,5 m.kr., annars vegar í tengslum við Icesave og hins vegar vegna málflutnings fyrir EFTA-dómstólnum um gjaldeyrishöft.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 145 m.kr.
251     Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
        1.10
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Lögð er til 120 m.kr. hækkun á fjárheimild til endurgreiðslna vegna skuldbindinga sem myndast hafa á yfirstandandi ári á grundvelli laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Samþykktar fjárheimildir í fjárlögum ársins 2011 gerðu ráð fyrir 157 m.kr. útgjöldum til endurgreiðslna. Þá voru yfirfærðar afgangsheimildir frá fyrra ári, um 40 m.kr., þannig að heildarfjárheimildir ársins nema um 197 m.kr. Iðnaðarráðuneytið hefur á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs greitt út um 320 m.kr. í framleiðslustyrki og skortir því um 120 m.kr. fjárheimild til að mæta því. Þessu til viðbótar telur iðnaðarráðuneytið útlit fyrir að skuldbindingar vegna ríkisstyrkja til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsþátta sem fram koma á síðasta ársfjórðungi ársins 2011 geti orðið nálægt 400 m.kr. Skuldbindingar vegna þessara verkefna verði þar með í kringum 700 m.kr. á árinu eða 450% hærri en fjárveiting fjárlaga ársins. Í tillögunni er því gert ráð fyrir að greiðslur vegna þessara viðbótarskuldbindinga fari fram á næsta ári. Samkvæmt umræddum lögum er heimilt að endurgreiða 20% af öllum framleiðslukostnaði kvikmynda og sjónvarpsefnis, auk styrkja frá Kvikmyndasjóði, þannig að ríkisstyrkur nemi allt að 50%. Í lögunum er gert ráð fyrir að fjárhæð endurgreiðslna sé háð fjárveitingu og kveðið á um að ráðherra sé heimilt að fresta greiðslum vegna samþykktra umsókna umfram fjárheimildir til næsta fjárlagaárs. Lögin fela hins vegar í sér tiltekinn rétt framleiðenda til greiðslna að uppfylltum almennum skilyrðum og því hefur iðnaðarráðherra varla forsendur til að koma í veg fyrir að nýjar skuldbindingar myndist. Ljóst er að fyrirkomulag ríkisstyrkja til þessarar atvinnugreinar getur leitt til umtalsverðrar óvissu um kröfur á ríkissjóð á hverju fjárlagaári. Getur það falið í sér að leita verður eftir fjárheimildum eftir á þegar búið er að stofna til skuldbindinga í stað þess að Alþingi ákvarði þær fyrir fram sem útgjaldaramma í samræmi við markaða ríkisfjármálastefnu eins og á við í mörgum öðrum málaflokkum og verkefnum. Virðist því ástæða til að huga að því hvort þetta fyrirkomulag ríkisstyrkja getur talist vera heppilegt til frambúðar.
301     Orkustofnun.
        1.01
Orkustofnun. Gerð er tillaga um 25 m.kr. fjárframlag til að mæta kostnaði vegna lokafrágangs 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Kostnaður sem féll til á árinu reyndist nauðsynlegur til þess að ljúka vinnu við verkið, ganga frá lokaskýrslu og vinna við þingsályktunartillögu. Hluti þessa kostnaðar var ófyrirséður. Auk þess var um að ræða vinnu við að tryggja faglega meðferð og kynningu en umfang þeirrar vinnu var ekki að fullu ljóst fyrr en faghópar höfðu skilað sinni vinnu. Vinna verkefnisstjórnar við frágang tillagna eftir að faghópar höfðu skilað af sér og prentun og lokafrágangur skýrslu nam 13 m.kr. Kostnaður við sérfræðivinnu við að taka saman yfirlitsblað um hvern virkjanakost og vinna að tillögu til þingsályktunar nam um 5 m.kr. Vinna við umhverfismat verndar- og orkunýtingaráætlana nam 4 m.kr. Þá er ráðgert að samráðsferli og kynning muni nema um 3 m.kr. Því er gerð tillaga um að fjárveiting ársins 2011 vegna verndar- og orkunýtingaráætlunar á árinu 2011 verði 25 m.kr.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 31,5 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.41
Skrifstofa um vernd gróður- og dýraríkis á norðlægum slóðum, CAFF. Gerð er tillaga um 0,5 m.kr. fjárveitingu vegna greiðslu fasteignaskatts af húsnæði skrifstofunnar í Borgum á Akureyri. Þegar bygging og rekstur rannsóknarhússins var auglýst til útboðs á sínum tíma lá ekki fyrir hve stóran hlut háskólinn mundi nýta fyrir sína starfsemi og þess vegna var skatturinn tekinn út fyrir sviga. Á þessu var þó tekið í leigusamningum og þar kveðið á um að fasteignaskattur yrði innheimtur sérstaklega eftir að hann hefði verið lagður á hverju sinni. Leigusala láðist þó að innheimta skattinn og sendi því á haustmánuðum einn reikning fyrir uppsöfnuðum fasteignaskatti síðustu fimm ára.
        1.42
Skrifstofa Norðurskautsráðsins um varnir gegn mengun hafsins, PAME. Gerð er tillaga um 0,5 m.kr. fjárveitingu vegna greiðslu fasteignaskatts af húsnæði skrifstofunnar í Borgum á Akureyri. Þegar bygging og rekstur rannsóknarhússins var auglýst til útboðs á sínum tíma lá ekki fyrir hve stóran hlut háskólinn mundi nýta fyrir sína starfsemi og þess vegna var skatturinn tekinn út fyrir sviga. Á þessu var þó tekið í leigusamningum og þar kveðið á um að fasteignaskattur yrði innheimtur sérstaklega eftir að hann hefði verið lagður á hverju sinni. Leigusala láðist þó að innheimta skattinn og sendi því á haustmánuðum einn reikning fyrir uppsöfnuðum fasteignaskatti síðustu fimm ára.
211     Umhverfisstofnun.
        1.01
Umhverfisstofnun. Gerð er tillaga um 2,3 m.kr. fjárveitingu vegna greiðslu fasteignaskatts af húsnæði stofnunarinnar í Borgum á Akureyri. Þegar bygging og rekstur rannsóknarhússins var auglýst til útboðs á sínum tíma lá ekki fyrir hve stóran hlut háskólinn mundi nýta fyrir sína starfsemi og þess vegna var skatturinn tekinn út fyrir sviga. Á þessu var þó tekið í leigusamningum og þar kveðið á um að fasteignaskattur yrði innheimtur sérstaklega eftir að hann hefði verið lagður á hverju sinni. Leigusala láðist þó að innheimta skattinn og sendi því á haustmánuðum einn reikning fyrir uppsöfnuðum fasteignaskatti síðustu fimm ára.
231     Landgræðsla ríkisins.
        1.01
Landgræðsla ríkisins. Gerð er tillaga um 17,3 m.kr. hækkun á framlagi til Landgræðslu ríkisins til að mæta kostnaði vegna viðbragða við eldgosum. Framlagið er til viðbótar 40 m.kr. framlagi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Eins og þar er gert ráð fyrir að þessi hækkun verði flutt af liðnum 09-989 Ófyrirséð útgjöld hjá fjármálaráðuneytinu og lækkar fjárheimild þess liðar því jafnmikið.
401     Náttúrufræðistofnun Íslands.
        1.01
Náttúrufræðistofnun Íslands. Gerð er tillaga um 9,4 m.kr. fjárveitingu vegna greiðslu fasteignaskatts af húsnæði stofnunarinnar í Borgum á Akureyri. Þegar bygging og rekstur rannsóknarhússins var auglýst til útboðs á sínum tíma lá ekki fyrir hve stóran hlut háskólinn mundi nýta fyrir sína starfsemi og þess vegna var skatturinn tekinn út fyrir sviga. Á þessu var þó tekið í leigusamningum og þar kveðið á um að fasteignaskattur yrði innheimtur sérstaklega eftir að hann hefði verið lagður á hverju sinni. Leigusala láðist þó að innheimta skattinn og sendi því á haustmánuðum einn reikning fyrir uppsöfnuðum fasteignaskatti síðustu fimm ára.
407     Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
        1.01
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Gerð er tillaga um 1,5 m.kr. fjárveitingu vegna greiðslu fasteignaskatts af húsnæði stofnunarinnar í Borgum á Akureyri. Þegar bygging og rekstur rannsóknarhússins var auglýst til útboðs á sínum tíma lá ekki fyrir hve stóran hlut háskólinn mundi nýta fyrir sína starfsemi og þess vegna var skatturinn tekinn út fyrir sviga. Á þessu var þó tekið í leigusamningum og þar kveðið á um að fasteignaskattur yrði innheimtur sérstaklega eftir að hann hefði verið lagður á hverju sinni. Leigusala láðist þó að innheimta skattinn og sendi því á haustmánuðum einn reikning fyrir uppsöfnuðum fasteignaskatti síðustu fimm ára.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

        Lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda ríkissjóðs verði lækkuð um 514 m.kr.
801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10
Vaxtagjöld ríkissjóðs. Endurmat á áætlun í nóvember um vaxtagjöld ríkissjóðs árið 2011 felur í sér að útgjöldin verði heldur lægri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu, eða sem nemur 514 m.kr. á rekstrargrunni og 838 m.kr. á greiðslugrunni. Skýrist það aðallega af því að vaxtakjör á ríkisbréfum hafa verið ívið betri en reiknað var með áður.


    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 9. nóvember 2011.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Oddný G. Harðardóttir.


Björgvin G. Sigurðsson.



Björn Valur Gíslason.


Árni Þór Sigurðsson.